Gildran sýnd um helgina

Kvikmyndin Gildran eftir Örn Inga Gíslason, sem var frumsýnd 17. júní 2002, verður sýnd á Listasafninu 15. og 16. desember kl. 15.00. 

Myndin fjallar um ungt fólk og ævintýri þess í Færeyjum og á Íslandi. Fimm 15 ára vinkonur hreppa ferðavinning til Færeyja en stóra spurningin snýst um hvort þær fái fararleyfi og þá á hvaða forsendum.
 
Alls komu 60 manns fram í myndinni, sem tekin var upp um verslunarmannahelgina á Akureyri og Fiskideginum mikla á Dalvík. Barnamenningarsjóður veitti styrk, m.a. á þeim forsendum að um er að ræða mynd þar sem ofbeldi og fíkniefni koma ekki við sögu. Framleiðslan var einnig styrkt af Akureyrarbær.

Í aðalhlutverkum eru Sólveig Sigurðardóttir, Freyja Pálína Jónatansdóttir, Adda Soffía Ingvarsdóttir, Hrafnhildur Björnsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Úlla Árdal, Petra Björk Pálsdóttir og Jón Ingi Einarsson.

Handrit, leikstjórn, myndataka, hljóð- og myndvinnsla var í höndum Arnar Inga.