Gleðilega páska - opið alla hátíðisdagana

Yfirstandandi sýningar í Sjónlistamiðstöðinni verða opnar alla páskana kl. 12-17 og sem fyrr er ókeypis á allar sýningarnar.

Í Listasafninu á Akureyri sýna þeir Helgi Hjaltalín og Pétur Örn undir yfirskriftinni Markmið XIV. Á sýningunni halda þeir áfram að gera tilraunir, sem skila engri afgerandi niðurstöðu, á ferðalagi sem hefur engan sérstakan áfangastað. Tilgangur félaganna er að setja saman mynd þar sem framkvæmd og framsetning sýningarinnar verður að sjónrænni upplifun.

Hugmyndaferðalög þessara tveggja myndlistamanna hafa leitt til samvinnuverkefna sem skrásett eru í formi afritaðra athafna, meðal annars með ljósmyndum, myndböndum, skúlptúrum og öðrum tjáningarmiðlum myndlistarinnar.

Gómsætir réttir úr eldhúsi myndlistarinnar

Um síðustu helgi opnaði Dagrún Matthíasdóttir sýninguna Gómsætt í Ketilhúsinu. Matur er umfjöllunarefnið þar sem Dagrún vinnur með ólík efni og aðferðir og velur það sem hentar viðfangsefninu hverju sinni. Frásögn bregður fyrir í verkum hennar þar sem hún gramsar í matnum og gefur honum hlutverk með túlkun sinni í formum og litum. Á sýningunni reiðir Dagrún fram alls konar rétti úr eldhúsi myndlistarinnar, jafnt hefðbundin málverk sem fjöltæknilega bragðarefi. Þannig fá gestir sýningarinnar vatn í munninn um leið og hugtökin tilraunaeldhús og heimabakstur eignast nýja merkingu.

Stétt með stétt ? síðustu sýningardagar

Framundan eru síðustu dagar samsýningarinnar Stétt með stétt í Deiglunni. Þar sýnir fjöldi listamanna verk sem öll eru unnin út frá gangstéttunum í Listagilinu. Hver listamaður bjó til sína eigin hellu í myndverki og saman mynda þær eina stétt. Þannig samanstendur sýningin af hellum sköpuðum af fólki úr öllum stéttum þjóðfélagsins.