Glens og grín í Gilinu á Akureyrarvöku

Þann 28. ágúst átti Listasafnið á Akureyri 20 ára afmæli. Hátíðahöld í tilefni afmælisins fara fram á laugardag með ýmsum uppákomum og viðburðum í Gilinu; listmarkaður verður úti á götu (kl. 13-17), stórt málverk verður unnið undir berum himni, veitingamenn bregða á leik og boðið verður uppá ókeypis tattú með merki Sjónlistamiðstöðvarinnar, svo nokkuð sé nefnt. Stefán Boulter verður með leiðsögn um sýningu sína og Janne Laine í Listasafninu, Þórdís Alda sýnir í Ketilhúsi og Frímann Kjerúlf í Deiglunni. Á rauða dreglinum, sem rúllað verður út um aðaldyr safnsins, geta allir verið stjörnur, hvernig sem viðrar, og tekið sér góðan tíma því Sjónlistamiðstöðin verður opin kl. 9-23.