Hiroko Shitate sýnir í Mjólkurbúðinni

Japanska listakonan Hiroko Shitate opnar myndlistasýninguna Shadowing – Work in Progress í Mjólkurbúðinni í Listagilinu, kl. 14 laugardaginn 28. mars.

Hiroko Shitate er menntuð í hefðbundinni japanskri málun þar sem ströngum reglum þessarar ævafornu listsköpunar er fylgt eftir. Síðar kynntist hún japönsku avant-garde hreyfingunni Gutaï sem enn er mikill áhrifavaldur í listalífi Japans. Hún hrífst af frelsinu við að skapa óháð stöðlum hefðbundinnar japanskrar listar og á sýningunni notar listakonan garn og japanskan pappír sem efnisval.

Hiroko hefur sýnt víða í Japan en einnig í Suður-Kóreu, Þýskalandi, Svíþjóð og á Íslandi, en hún hefur dvalið í gestavinnustofu Gilfélagsins í Listagilinu í marsmánuði. Sýningin stendur aðeins þessa einu helgi og er opnunartími kl. 14 -17 laugardag og sunnudag.