Íslensk tunga í Vesturheimi

Íslensk tunga í Vesturheimi
Kristín M. Jóhannsdóttir.

Þriðjudaginn 23. febrúar kl. 17-17.40 heldur Kristín M. Jóhannsdóttir aðjúnkt við Hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, undir yfirskriftinni Íslensk tunga í Vesturheimi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um stöðu íslensku í Vesturheimi og hvernig samfélagið sjálft spilar þar inn í. Sérstök áhersla verður lögð á þær breytingar sem orðið hafa á málinu og hvað það er sem breytist eða jafnvel glatast í máli einstaklinga og samfélaga. 

Á árunum 1870-1914 fluttist  hátt í fimmtungur landsmanna til Vesturheims. Langflestir fluttu til Manitoba þar sem þeir stofnuðu eigið samfélag, Nýja Ísland, þar sem íslenska var nokkurs konar opinbert tungumál. Smám saman jukust þó áhrif ensku og nú er svo komið að íslenska er að deyja út sem móðurmál í Norður Ameríku.  

Kristín M. Jóhannsdóttir er aðjúnkt við Hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur doktorspróf í málvísindum frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu og bjó í tólf ár í Kanada þar sem hún kenndi meðal annars íslensku við Manitóbaháskóla. 

Þetta er sextándi Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins en fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistafélagsins.