Klæðnaður á miðöldum

Klæðnaður á miðöldum
Beate Stormo.

Þriðjudaginn 6. október kl. 17 heldur Beate Stormo fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Klæðnaður á miðöldum. Þar fjallar hún um klæðnað miðalda og þátttöku sína á miðaldadögum á Gásum. Aðgangur er ókeypis. 

Beate Stormo er bóndi og eldsmiður og hefur haft áhuga á gömlu handverki og fornöld frá blautu barnsbeini. Hún hefur starfað með miðaldahópnum Handraðanum í tengslum við miðaldadagana á Gásum frá upphafi og skoðað sérstaklega miðaldafatnað frá þeim tíma og haldið námskeið i miðaldafatasaum víða á Íslandi.

Fyrirlesturinn er annar í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Jón Þór Sigurðsson, Ragnheiður Þórsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir, Þorlákur Axel Jónsson, Haraldur Ingi Haraldsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir og Þórhallur Kristjánsson.