Leiðsögn á Listasafninu í dag kl. 12

Í dag, fimmtudaginn 9. október, kl. 12 verður síðasta leiðsögnin um sýningu Örnu Valsdóttur,Staðreynd ? Local Fact, á Listasafninu. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi mun þá fræða gesti um sýninguna og tilurð verkanna. Aðgangur er ókeypis.

Á sýningunni má sjá myndbandsverk sem Arna hefur sett upp á síðustu sjö árum ásamt nýju verki sem er sérstaklega gert fyrir þessa sýningu auk verksins La frá árinu 1988 sem markar ef til vill upphafið á rýmistengdum verkum Örnu.

Arna Valsdóttir nam myndlist við MHÍ og Jan van Eyck Academie í Hollandi þaðan sem hún lauk námi 1989. Í Hollandi var Arna þegar farin að gera tilraunir með nýja miðla tengdum gjörningum, tónlist, ljósmyndun og myndvörpun auk hefðbundnari myndlistar. Á þessum tíma fór hún einnig að flétta eigin söngrödd inn í verk sín. Þessar aðferðir hafa verið gegnumgangandi í sköpunarferli Örnu allt til dagsins í dag og hún hefur unnið margvísleg verk þar sem hún nýtir eigin rödd í fjölbreytt rýmisverk og gjörninga, bæði sem vídeóverk og innsetningar.