Leiðsögn og sýningalok

Fimmtudaginn 23. febrúar kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á síðustu leiðsögnina um yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk, og sýningu Alana LaPoint, Töfruð djúp, í Listasafninu, Ketilhúsi. Báðum sýningum lýkur næstkomandi sunnudag, 26. febrúar. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýningarnar og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

Nína Tryggvadóttir (1913-1968) var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og þátttakandi í formbyltingunni í íslenskri myndlist á 5. og 6. áratugnum. Hún nam myndlist í Kaupmannahöfn og New York og bjó auk þess í París, Lundúnum og Reykjavík. Nína vann aðallega með olíu á striga en hún er einnig þekkt fyrir pappírsverk, verk úr steindu gleri, mósaíkverk og barnabækur. Hún var einn af brautryðjendum ljóðrænnar abstraktlistar.

Sýningin Litir, form og fólk er unnin í samvinnu við Listasafn Íslands, en í safneign þess eru um 80 verk eftir Nínu frá tímabilinu 1938–1967. Hún er að hluta byggð á sýningunni Ljóðvarp sem sett var upp í Listasafni Íslands 2015, en í tengslum við þá sýningu kom út vegleg bók um Nínu. Bókina prýðir fjöldi ljósmynda af verkum hennar auk greina og viðtala á íslensku og ensku. Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

Alana LaPoint (f. 1991) er að mestu leyti sjálfmenntaður listamaður sem hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á heimaslóðum sínum í Vermont í Bandaríkjunum á síðustu tíu árum. Alana vann undir leiðsögn abstraktmálarans Galen Cheney 2007-2009.

„Þetta landslag á sýningunni varð til vegna löngunar til að tjá þá hrifningu sem ég upplifi þegar ég stend í fjöruborðinu,“ segir LaPoint. „Frá því sjónarhorni er ég ákaflega meðvituð um samtengingu alheimsins. Um ímyndunarafl mitt leika lausum hala sögur af fólki og lífverum sem lifa og deyja í þessu vatni og fylla mig bæði af tilfinningu fyrir smæð minni, og óviðjafnanlegri friðsæld. Ég reyni að miðla skynhrifunum gegnum þessi málverk og gera þau aðgengileg áhorfendum. Efni til listsköpunar, ein og sér, veita mér mikinn innblástur því möguleikarnir eru svo margir. Linnulaust kanna ég eiginleika litarefna og málningar og elti uppi nýjar aðferðir og tækni. Þessi óseðjandi forvitni og fróðleiksfýsn veitir mér innblástur, jafn takmarkalausan og hafið.“