Leiðsögn um sýninguna Svelgir

Leiðsögn verður í Listasafninu, Ketilhúsi í dag, fimmtudaginn 22. janúar, kl. 12.15 - 12.45 um sýningu Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, Svelgir, sem opnaði um síðustu helgi. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

Rósa Sigrún Jónsdóttir útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands 1987 og Listaháskóla Íslands 2001. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Rósa var formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík í fjögur ár auk þess að vera fulltrúi SÍM í Listskreytingasjóði og sitja sem varamaður í stjórn félagsins.

„Það er eitthvað við handavinnu sem nær tökum á mér, hendurnar verða háðar henni og höfuðið finnur ekki frið nema eitthvað sé í gangi milli handanna,“ segir Rósa. Frá útskrift úr Listaháskólanum hef ég öðru hvoru sett upp nokkuð stórar textílinnsetningar byggðar upp af hekli og prjóni sem strekkist út í rýminu. Mér finnst áhugavert að skoða þennan efnivið sem á sér svo djúpar rætur í menningarheimi kvenna og láta reyna á þanþolið í þræðinum“. 

Að þessu sinni fékk Rósa til liðs við sig hóp kvenna sem hefur heklað og prjónað samkvæmt nokkrum fyrirfram gefnum reglum um form og liti frá því í ágúst 2014. Sýningin stendur til 1. mars.