Listumfjöllun | Um sýningar Guðrúnar Einarsdóttur og Rögnu Róbertsdóttur

Um sýningar Guðrúnar Einarsdóttur og

Rögnu Róbertsdóttur

í Listasafninu á Akureyri

eftir G. Pálínu Guðmundsdóttur fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar

 

Samspil náttúru og sýningarrýmis

Guðrún sýnir verk sem í raun eru enn í þróun, líkt og jarðskorpan. Nokkur verkanna sýnir hún í láréttri stöðu eins og þegar hún vinnur þau. Hún hefur byggt grind undir þau og verða þær að einhvers konar skúlptúr við það, sem er ný nálgun á verkunum. Málverkin ýmist hanga á veggjunum eða standa á gólfinu og einnig hefur hún staðsett á gólfi nokkrar misstórar svartar kúlur eða hnetti úr þurrum olíulit.

Guðrún hellir olíulitnum á málaradúk sem hefur verið grunnaður og stundum málað yfir í mismunandi litum. Hún hellir svo yfir dúkinn ýmsum efnum og olíum og stýrir sem minnst því efnafræðilega ferli sem þá hefst. Efnin leita inn að miðju og þar mynda þau mismunandi efnasambönd. Áferðin verður lífræn og oft lík því sem sést í náttúrunni. Þetta eru því náttúru/landslags málverk sem skapa sig að miklu leyti sjálf eftir að efnafræðilegu ferlarnir og þornun efnisins hefst.

Þetta kann að hljóma einfalt í framkvæmd en verk Guðrúnar byggja engu síður á mikilli kunnáttu og æfingu, áratuga reynslu og einstakri færni hennar. Í afgreiðslu Listasafnsins er til sýnis bók sem kom út fyrir nokkrum árum og þar má glögglega sá hvernig list hennar hefur þróast. Langan tíma tekur fyrir verkin að þorna alveg í gegn og þó yfirborðið sé orðið þurrt er mikilvægt að áhorfandinn snerti ekki verkin. Þau mynda mismunandi áferðir sem oftast minna á landslag, yfirborðið krumpast saman eða springur þannig að úr verður hálfgert hraun eða loftmyndir af gígum.

 

Olíuliturinn skapar nýja nálgun á landslagsmálverkum

Samspil áferðar og lita tengja málverkin óneitanlega við íslenska náttúru. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að skoða þau vel líkt og þegar við upplifum náttúruna á rólegu rölti. Verkin mynda samstæða heild, eru margbrotin og ólík flestum öðrum íslenskum landslagsmyndum. Listamaðurinn hefur einstaklega mikla þekkingu á olíulitnum, meðhöndlun hans og möguleikum og lætur litinn sjálfan sjá um að skapa olíumálverk af landslagi án þess að nokkur pensilför komi þar nálægt eða stjórnun listamannsins yfir efninu og endanlegri útkomu verkanna. Listamaðurinn lætur fegurðina koma úr sjálfu efninu en reynir ekki að stjórna því of mikið heldur treystir frjálsu flæði litarins, olíunnar og því sem hún blandar saman á dúknum. Verk Guðrúnar Einarsdóttur og Rögnu Róbertsdóttur harmónera vel saman í sölum Listasafnsins, þær eru ólíkar en fjalla báðar um efnið og náttúruna á sannfærandi og áhugaverðan hátt þar sem fegurðin er aldrei langt undan þótt hún sé ekki markmiðið í sjálfu sér. Nýlega sýndu  þær saman í Hafnarhúsinu/Listasafni Reykjavíkur ásamt ýmsum öðrum myndlistarmönnum. Sýningin í Listasafninu á Akureyri gefur áhorfandanum færi á að kynnast þeim frá mun fleiri hliðum og verk þeirra njóta sín vel. Ragna sýndi einnig nýlega í Gallerýi i8 í Reykjavík og var sú sýning  ógleymanlega fögur. Þar var fullkomið samræmi á milli verkanna og rýmisins og varð sýningin sem ein heild þar sem listaverkin og rýmið runnu saman í eitt. Hún býr í því sambandi yfir einstakri snilligáfu sem fáir listamenn hafa á sínu valdi.

 

Jafnvægislist efnis og rýmis

Áratuga löng vinna og fjöldi sýninga hafa þróað einstakan myndlistarstíl Rögnu sem og tilfinningu hennar fyrir jafnvægi milli verka og rýmis. Yfirstandandi sýning  í Sjónlistamiðstöðinni er í svipuðum dúr og áðurnefnd sýning Rögnu í i8, en þar sem sýningarrýmin eru ólík verður útkoman einnig nokkuð ólík þó báðar séu fagrar og áhugaverðar. Ragna hefur mikið efnislegt næmi eftir áratuga þrotlausa vinnu í listinni og telst í fremsta flokki þroskaðra listamanna á Íslandi, enda einn þátttakenda Íslands í sýningu sem sett var upp að tilefni afhendingar hinna norrænu Carnegie myndlistarverðlauna 2012. Sú sýning kom aldrei til landsins og má það teljast afleitt að hún sé ekki sýnd í öllum Skandinavísku löndunum, þar sem þau eiga öll sína fulltrúa þar.

Verk Rögnu tengja íslenska náttúru á yfirvegaðan og áhugaverðan hátt inn í sýningarrýmið svo hvoru tveggja nýtur sín til fullnustu. Það má hugsanlega segja að þetta sé einhvers konar land art þar sem listamaðurinn mótar landið og náttúruna utandyra, en hér er náttúruupplifunin innandyra. Hún breytir upplifuninni af náttúrunni með því t.d að gera ferhyrnd verk af litlum kuðungum eða hrúðköllum og láta ígulkerin fá að njóta sín ein og sér og kallast á við ferhyrnd verk úr skeljum og steinum. Ragna sýnir einnig seríu af saltverkum sem voru á Carnegie-sýningunni á síðasta ári. Hugmyndina af verkunum fékk hún í Ameríku þegar hún gekk um saltbornar göturnar að vetri til.

 

Fegurð og fjölbreytileiki saltkristallanna

Saltið á götunum myndaði áhugaverð munstur og hún ákvað að reyna að skapa sambærileg munstur á þartilgerðum gler eða plexíglerplötum inni í vinnustofu sinni. Eftir að þau þornuðu setti hún þau í loftþétta innrömmun með glerinu að framan og því má reikna með að efnið breytist lítið þó tímans tönn herji á það. Verkin eru undurfögur og áhugaverð hvert og eitt þar sem saltflekkirnir mynda sín eigin lífrænu form sem kallast á við hvítt umhverfi sitt og mynda gott jafnvægi. Í sumum verkanna hefur ösku og vikri verið blandað saman við saltið en í öðrum er það eins hreint og það kemur fyrir á matarborðinu. Hvoru tveggja nýtu sín vel á myndfletinum. Á gólfi eru glerskálar eða ker sem lokast og mynda loftþétt hvelft rými með þurrkuðu saltmunstri.

Sýningar Rögnu og Guðrúnar mynda áhugavert samspil anda og hugmynda annars vegar og efnis og þess jarðtengda hins vegar. Nauðsynlegt er að gefa sér góðan tíma í að horfa á þessi listaverk og láta engin smáatriði fram hjá sér fara. Mjög gott er að sjá þær oftar en einu sinni því þær vaxa við áhorf eins og góð list gerir gjarna. Við ítrekað áhorf breytast sýningar eða upplifunin af þeim og þær lifna við. Hversdagslegt amstur gleymist og áhorfandinn getur komist í einskonar hugleiðsluástand þar sem hann upplifir djúpa tengingu við listina, náttúruna og sjálfan sig.