Listumfjöllun | Víxlverkun

Um sýningu D. Írisar Sigmarsdóttur og Herthu M. Richardt Úlfarsdóttur

 

VÍXLVERKUN

 

eftir G. Pálínu Guðmundsdóttur fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar

Í Deiglunni sýna þær D. Íris Sigmarsdóttir og Herta M. Richardt Úlfarsdóttir. Þær eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast frá Myndlistarskólanum á Akureyri, vera báðar frá Austurlandi og eru núna starfandi og búsettar í Reykjavík.

 

Strákur í kjól

Útskriftarverkefni Herthu var áhrifamikil og minnistæð innsetning  en síðustu ár hefur hún einbeitt sér að teikningunni. Hún nam skapandi skrif, heimspeki og kynjafræði við HÍ og má sjá nokkur áhrif þess í verkunum sem ýmist eru í myndasögustíl eða í ætt við hefðbundnari teikningu. Hún notar blandaða tækni í verkum sínum og blandar textabrotum, sem gegna veigamiklu hlutverki, við teikninguna. Á muses.is er hægt að lesa eftirfarandi texta um verk hennar: "Hugmyndafræðin sem liggur að baki verkunum er að hið persónulega er pólitískt. Hver einstaklingur tekur daglega við gríðarlegu magni upplýsinga. Í umhverfinu gnæfa auglýsingar, lagabútar, ræður, listir, náttúra og hið lesna orð yfir mannskepnunni. Þetta flæði litar skynjun okkar á þeim veruleika sem við búum við og mótar hugmyndir okkar. Að lokum brýst þessi hugmyndaheimur út í atgerfi okkar og gjörðum.? Titlarnir á verkum Herthu eru sláandi t.d. Strákur í kjól, Þetta er mín bylting og Soldier Baby. Það er broddur í mörgum verka hennar sem hittir í mark í samfélagsumræðu dagsins í dag. Hún er flinkur og áhugaverður teiknari og einnig er samblanda hennar úr ýmsum efnum og textabrotum afar sterk og til þess fallin að undirstrika það sem um er fjallað.

 

Kvenlíkaminn, fjölmiðlar og tilfinningaleg barátta

Íris blandar saman brotum af ljósmyndum glanstímarita og bætir við þær teikningu og litaslettum og notar þá mismunandi efni sem eykur á blæbrigði verkanna. Hún fjallar um kvenlíkamann annars vegar og huga og tilfinningar hins vegar og baráttuna sem getur verið þarna á milli ? kröfu fjölmiðlanna um hið fullkomna útlit. Verk Írisar eru elegant, fáguð og tjáningarrík og er í þeim gott jafnvægi á milli sársauka, fegurðar og skops. Þau minna helst á verk listamannsins Wangechi Mutu sem fædd er í Kenya 1972 en er nú starfandi og búsett í New York.

Uppsetning myndlistamannanna er áhugaverð í því erfiða rými sem Deiglan er, sumstaðar hanga verkin ein og aðskilin og annars staðar setja listakonurnar myndir eftir sig hlið við hlið. Útkoman verður áhugaverð blanda eins og um sama listamann væri að ræða. Þær eru báðar að þróa sína list að enn persónulegri stíl og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni. Sýningin er fersk, kvenleg, kraftmikil og felur í sér skarpa samfélagsgagnrýni.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um verk Írisar og Herthu á muses.is.