Listvinnustofa fyrir 5-10 ára

Laugardaginn 11. maí kl. 11-12.30 verður boðið upp á listvinnustofu fyrir 5-10 ára börn í Listasafninu. Umsjón hefur Rósa Kristín Júlíusdóttir, kennari og myndlistarkona. Aðgangur er ókeypis í boði Uppbyggingarsjóðs Eyþings.

Rósa starfaði í 22 ár við kennaradeild Háskólans á Akureyri og rannsakaði þar m.a. myndlistarnám barna og ungmenna. Hún hefur skrifað fjölda greina sem birst hafa í íslenskum og erlendum bókum og tímaritum. Rósa lauk myndlistarnámi á Ítalíu undir lok sjöunda áratugarins og hefur síðan unnið að myndlist og kennslu. Hún var einn  af stofnendum Rauða hússins og Gilfélagsins auk þess sem hún rak listhúsið Samlagið ásamt fleiri listamönnum í nokkur ár.