Lokunarteiti Jorisar

Í dag, fimmtudaginn 19. febrúar, kl. 15-17 lýkur sýningu Jorisar Rademaker, Hreyfing, í vestursalnum með lokunarteiti. Þar með gefst gestum og gangandi tækifæri til þess að spjalla við listamanninn um sýninguna og þær breytingar sem átt hafa sér stað síðan hún opnaði síðastliðinn laugardag. Á sýningunni veltir listamaðurinn fyrir sér spurningum um eðli mismunandi hreyfinga. Hvert verk á sýningunni má túlka sem táknræna fullyrðingu um ólíkar hreyfingar í þrívídd.

Joris Rademaker lauk námi frá AKI í Enchede í Hollandi 1986 og hefur búið á Íslandi síðan 1991. Meginviðfangsefni Jorisar hefur löngum verið rými, hreyfing og orkuútgeislun. Á síðustu árum hefur áherslan einnig verið á samspil lífrænna efna sem byggingarefni fyrir þrívíð verk. Þrjátíu árum eftir útskrift úr listaakademíu er efnisvalið orðið ansi frjálslegt. Listaverkin kalla fram spurningar í samhengi við tilvist okkar, rými og náttúruna. Að baki hverju einasta verki liggja margvíslegar tilraunir og nákvæmar útfærslur sem skila sér svo áfram í næstu verkefni. Verkin hafa oftast táknrænt gildi sem tengist mannlegu eðli.

Sýningin er hluti af sýningaröð sem hófst 10. janúar og mun standa til 8. mars og inniheldur 8 vikulangar sýningar. Habby Osk, Brenton Alexander Smith, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Kristján Pétur Sigurðsson hafa þegar sýnt og nú stendur yfir sýning Thoru Karlsdottur, Skilyrði: Frost. Þeir listamenn sem eiga eftir að sýna eru Lárus H. List og Arnar Ómarsson.