Markmið XIV ? síðustu sýningardagar

Framundan eru síðustu dagar sýningar Helga Hjaltalín og Péturs Arnar, Markmið XIV, í Listasafninu á Akureyri. Á sýningunni halda þeir áfram að gera tilraunir, sem skila engri afgerandi niðurstöðu, á ferðalagi sem hefur engan sérstakan áfangastað. Tilgangur félaganna er að setja saman mynd þar sem framkvæmd og framsetning sýningarinnar verður að sjónrænni upplifun. Þeir ýta myndmálinu að rökrænum þolmörkum sínum, en bjóða um leið áhorfandanum upp á dúnmjúkan þægindaramma fyrir skilningarvitin.

Hugmyndaferðalög þessara tveggja myndlistamanna hafa leitt til samvinnuverkefna sem skrásett eru í formi afritaðra athafna, meðal annars með ljósmyndum, myndböndum, skúlptúrum og öðrum tjáningarmiðlum myndlistarinnar. Sýningin byggir á samvinnuverkefninu Markmið, sem varð til um síðustu aldamót, og samanstendur af tveimur einkasýningum.

Sýningunni lýkur á næstkomandi sunnudag og er opin alla daga fram að lokun kl. 12-17.

Aðgangur er ókeypis.