Myndlist sem vísar í fortíðina

Sýningin Myndlist Minjar / Minjar Myndlist stendur nú yfir  í Listasafninu. Sýningarstjórinn, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, er forstöðumaður Byggðasafnsins Hvols á Dalvík.  Hún bauð 11 starfandi myndlistarmönnum sem allir tengjast henni persónulega að vinna listaverk út frá einhverjum ákveðnum hlut frá Hvoli eða einhverri fortíðarupplifun. Ekki vissu þeir neitt um vinnuferli eða val á fyrirmynd hver hjá öðrum fyrr en við uppsetningu sýningarinnar. Gefin hefur verið út vegleg sýningarskrá sem nú er til sölu á Listasafninu.

Saga safngripa skilin eftir

Íris leggur áherslu á að saga munanna sé skilin eftir á Dalvík og að menn horfi á efni, form og liti munanna óháð sögu þeirra ­? nokkuð sem áhorfandinn er að öllu jöfnu óvanur. Að líta þannig á fornminjar er góð áskorun sem þroskar sjónræna skynjun okkar. Á sýningunni er annars vegar blanda af munum frá Hvoli sem sumir tengjast verkum myndlistarmannanna og hins vegar munir sem Íris hefur valið að setja inn í sýninguna sem myndlistarverk. Auk þessa eru á sýningunni listaverk eftir Arngrím málara og Kristján Vigfússon.

Verkin eru unnin í mismunandi miðla og tengjast munirnir myndlistinni á margvíslegan hátt. Ef marka má viðbrögð hluta safngesta er ekki alltaf augljóst hvar tengingarnar liggja og verður því reynt hér að útskýra eilítið nánar hverjar þær eru. Mikilvægt er þó fyrir gesti safnsins að lesa merkingar vel og skoða sýningarskrá.

Nálgun og miðlar

Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, Haraldur Jónsson og Victor Ocares vinna öll videoverk. Victor, sem nýverið hélt afar áhugaverða einkasýningu í Deiglunni í Listagilinu, vinnur hér með video-hljóðverk sem frásögn af hluta ættarsögu sinnar. Verk Haraldar er staðsett í klefanum út frá vestursalnum. Þar sést hann á Hvoli klæddur hlífðarbúningi og skoðandi munina með hlíðfarhönskum. Sterkt og uppmagnað umhverfishljóðið framkallar spennuþrungið andrúmsloft. Bryndís vinnur sitt verk út frá skilvindu; veggverk með svörtum punkti á hvítum fleti sem sýnir hjartastað Jóhanns Svarfdælings og fær áhorfandann til að skynja í raun hvað aðgreindi hann frá okkur ? hvíti flöturinn afmarkar hæð hans. Videoverk Bryndísar sýnir skilrúm og gefur frekari tilfinningu fyrir einangrun og sérstöðu Jóhanns. Ragnhildur Stefánsdóttir, Sari Maarit Cedergren, Sara Vilbergsdóttir og Þór Vigfússon vinna öll þrívíð verk. Skúlptúristinn Svava Björnsdóttir vinnur tvívíð verk sem þó bera með sér leifar af þrívíðum pappamassaverkum hennar, þ.e. þeir sem þekkja skúlptúra hennar sjá skýra tengingu þar á milli. Þór Vigfússon vinnur með flækjuskúlptúra úr áli sem sitja á stöpli með gleri ofan á og hefur munum frá Hvoli verið komið fyrir undir glerinu. Ragnhildur vinnur með margföldun á einhverju sem græðir; trúin og áburður/plástur. Sari sýnir vinnuferli hómópatans, græðarans þar sem hendur eru hoggnar nákvæmlega út í ferhyrndan stein. Sara vinnur með trúna og spurningar tengdar rasisma. Verk Þrándar Þórarinssonar er málverk af konu klæddri í þjóðbúning ríðandi á nykri (þjóðsagnavera sem líkist hesti). Magdalena Margrét Kjartansdóttir sýnir stórt pappírsverk með mörgum smámyndum límdum á stærðar grafíkpappíra. Örn Alexander Ámundason slær nýjan tón í efnisvali og meðferð efnis. Hann hefur sett fimm hefti með lituðu pappírsrifrildi á vegg. Þar vísar hann í hina smáu hluti sem gegna þó svo mikilvægu hlutverki. Pappírsrifrildin undir heftunum vísa í fortíðina; fortíð einhvers sem fylgir með heftinu og í hlutverk og stöðu minjasafna.

Næði og nógur tími

Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma til að skoða sýninguna og tengjast verkum hennar; bæði safnmununum og einnig listaverkunum sem fyrir hana voru gerð. Þetta er afar fjölbreytt sýning sem hentar vel öllum skólastigum og eru skólar bæjarins, sem og allir bæjarbúar, hvattir til að koma og sjá þessa óvenjulegu sýningu.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri.

Myndlist minjar / Minjar myndlist stendur til 7. desember og er opin þriðjudaga - sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis. Leiðsögn er í boði annan hvern fimmtudag kl. 12.15 - 12.45.