Myndlistamiðja og listamannaspjall

Myndlistamiðja og listamannaspjall
Eiríkur Arnar Magnússon.

Laugardaginn 18. janúar kl. 13.30-15 verður boðið upp á myndlistasmiðju fyrir 18 ára og eldri með myndlistarmanninum Eiríki Arnari Magnússyni. Smiðjan er ókeypis og styrkt af Uppbyggingarsjóði Eyþings. Síðar sama dag kl. 15 verður boðið upp á listamannaspjall með Halldóru Helgadóttur um sýningu hennar Verkafólk. Stjórnandi er Hlynur Hallsson, safnstjóri.

Eiríkur Arnar Magnússon útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Hann á að baki fimm einkasýningar og hefur tekið þátt í 13 samsýningum á Íslandi, Eistlandi og Portúgal. Einnig hefur hann unnið sem sýningastjóri.

Eiríkur Arnar hefur aðallega fengist við fígúratíf málverk en einnig unnið með bókverk og bækur sem efnivið. Þar hefur hann meðal annars leitast við að upphefja gamalt handbragð og gefa því nýjan tilgang í formi skúlptúr-bókverka.

Til heiðurs verkfólki á Gleráreyrum


Halldóra Helgadóttir (f. 1949) lauk námi í málaradeild Myndlistaskólans á Akureyri 2000 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði erlendis og innanlands.

Á árunum eftir stríð var mikill uppgangur í iðnaði á Akureyri og voru flestir bæjarbúar tengdir verksmiðjunum á Gleráreyrum á einhvern hátt, enda voru þær stærsti vinnuveitandinn í bænum. Starfsemi verksmiðjanna lagðist endanlega af á tíunda áratugnum og var verslunarmiðstöð reist á svæðinu skömmu síðar. Nú er svo komið að það eina sem eftir stendur af þessari merku sögu er að finna á söfnum bæjarins.

Til heiðurs horfnum tímum og sérstaklega því fólki sem vann á verksmiðjunum er sýning Halldóru, Verkafólk, sett saman, en einnig til að minna á hvað starfsemi verksmiðjanna átti stóra hlutdeild í bæjarlífinu á Akureyri.