Mysingur II á laugardaginn

Laugardaginn 16. júlí kl. 17 heldur tónleikaröðin Mysingur áfram í mjólkurporti Listasafnsins á Akureyri. Fram koma Drinni, Áslaug Dungal og Holy Hrafn. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana. Hægt verður að kaupa grillmat og drykki frá Ketilkaffi á tónleikasvæðinu.

Drinni er best þekktur sem höfuðpaur hljómsveitarinnar „Drinna & the Dangerous Thoughts”, en kemur að þessu sinni fram einn með kassagítarinn og leikur tilfinningaríkan beinagrindablús. Áslaug Dungal er draumpoppari og nemandi í tónsmíðum við LHÍ og gaf út sína fyrstu stuttskífu í janúar á þessu ári. Holy Hrafn var upphaflega þekktur sem rappari, en hefur í auknum mæli snúið sér að mannbætandi blæjubílatónlist.

Þriðji og síðasti tónleikadagurinn er 27. ágúst næstkomandi. Tónleikaröðin er samstarf Akureyrarbæjar, Ketilkaffis, Geimstofunnar, Listasafnsins á Akureyri, Kjarnafæðis og Kalda.