Norrænir menningarstyrkir

Þriðjudaginn 6. september kl. 17 í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi heldur Norræni menningarsjóðurinn upplýsingafund. Þar fer Ása Richardsdóttir, fyrrum forseti Leiklistarsamband Íslands og sendiherra Norræna menningarsjóðsins, yfir norræna sjóðakerfið og möguleika á samstarfi og tengingum. Til að sækja um í sjóðunum þarf verkefnið að hafa sterka norræna tengingu. 

Norðurlöndin reka saman öflugt sjóðakerfi fyrir listir og menningu, en stærstu sjóðirnir eru Norræni menningarsjóðurinn (nordiskkulturfund.org) og Norræna Menningargáttin (kulturkontaktnord.org). Næsti stóri umsóknarfrestur er 3. október og því tilvalið að sækja sér upplýsingar núna. 

Ráðgjöf beint frá Ásu 

Samtök, fyrirtæki og einstaklingar sem eru með skýra hugmynd að verkefni eða hafa þegar undirbúið umsóknir geta óskað eftir einstaklingsráðgjöf hjá Ásu áður en fundurinn hefst eða kl. 13-16, þriðjudaginn 6. september. Þeir sem óska eftir slíkri ráðgjöf geta sent tölvupóst til Ásu á netfangið asa@stage.is.