Opið alla páskana

Opið alla páskana
Frá sýningunni Fólk / People.

Yfirstandandi sýningar í Listasafninu á Akureyri verða opnar alla páskahátíðina kl. 12-17.

Sýningin Fólk / People, sem var opnuð um síðastliðna helgi, segir áhorfandanum sögur af fólki og gefur innsýn í verk sjö listamanna sem allir vinna með ljósmyndir á ólíkan hátt. Á dögum sjálfsmyndanna (e. selfie) hafa portrettmyndir öðlast nýja merkingu og hér gefur að líta fólk í ólíkum aðstæðum séð með augum ólíkra listamanna í gegnum linsur fjölbreyttra myndavéla. Listamennirnir sjö eiga það sameiginlegt að vinna með ljósmyndir þó að viðfangsefnið „fólk“ sé ef til vill ekki það fyrsta sem okkur dettur í hug þegar við skoðum sum verka þeirra. 

Í Listasafninu, Ketilhúsi má sjá sýninguna Sköpun bernskunnar 2016. Þetta er í þriðja sinn sem sýning er sett upp undir þessu heiti og eru þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver sýning sjálfstæð og sérstök. Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og er einstök hvað varðar samvinnu myndlistarmanna og barna. Einnig verða sýnd myndverk frá námskeiði sem haldið var í tengslum við Sköpun bernskunnar 2015 þar sem leiðbeinendur voru Erwin van der Werve og Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir.