Opið alla verslunarmannahelgina

Yfirstandandi sýningar Listasafnsins á Akureyri / Sjónlistamiðstöðvarinnar verða opnar alla verslunarmannahelgina, lau.-sun.-mán., kl. 10-17 og er aðgangur ókeypis. Í Listasafninu geta áhugasamir skoðað það besta í íslenskri portrettlist á sýningunni Íslensk samtíðarportrett ? mannlýsingar á 21. öld. Þar gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag. Að einskorða sig við portrett er ein leið til að skoða á hvaða hátt íslenskir listamenn fjalla um samtíðina.

Á meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni má nefna Erró, Ragnar Kjartansson, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Hallgrím Helgason, Steinunni Þórarinsdóttur, Hugleik Dagsson, Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Baltasar Samper og Ólöfu Nordal. Sýningin stendur til 17. ágúst.

Þekktustu lógó Íslands

Í Ketilhúsinu má sjá yfirlitssýningu Gísla B. Björnssonar, Fimm áratugir í grafískri hönnun. Gísli er einn atkvæðamesti grafíker íslenskrar hönnunarsögu. Hann setti á fót auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar eftir nám í Þýskalandi 1961 og ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands. Hann hefur komið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi og búið til mörg af þekktustu vörumerkjum landsins. Má þar nefna merki Sjónvarpsins, Norræna félagsins og Hjartaverndar.

Á sýningunni er horft yfir feril Gísla og gefur að líta verk frá námsárum hans, tímarit, bókakápur og umbrot og hönnun bóka. Sýnd eru gömul myndbrot af auglýsingastofu Gísla þar sem tækni þess tíma gefur innsýn í vinnu teiknarans og hugmyndasmiðsins. Sýningin kemur frá Hönnunarsafni Íslands og stendur til 10. ágúst.

Tvívirkni í Deiglunni

GÓMS tvíeykið sýnir Tvívirkni í Deiglunni. GÓMS skipa þeir Georg Óskar og Margeir Dire sem hafa bundist sjónrænum böndum í einlægu bræðralagi og hér birtast dreggjar karlmennskunnar á sinn fegursta hátt. Í verkum tvíeykisins má glögglega sjá að allar hugmyndir hafa ákveðið vægi og hlaðast saman á einum myndfleti sem endurspeglar andrúmsloft og undirliggjandi samhengi hlutanna. Útkoman er aðferðafræði sem kallast ?absorbism? eða ?óbeislað hugmyndaflæði?. Á sýningunni renna tveir hugarheimar saman í einn undir einkunnarorðunum ?Gera meira, blaðra minna!? Sýningin stendur til 31. ágúst.