Opnanir framundan

Opnanir framundan
Jón Laxdal Halldórsson.

Fyrstu opnanir ársins 2016 verða laugardaginn 16. janúar kl. 15 þegar tvær sýningar opna í Listasafninu.

Í mið- og austursal safnsins sýnir Jón Laxdal Halldórsson undir yfirskriftinni …úr rústum og rusli tímans, en þar má sjá má sjá verk frá löngum ferli Jóns sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson. Þann 23. janúar verður svo sýningin í drögum / Prehistoric Loom IV opnuð í Listasafninu, Ketilhúsi en þar sýna 27 alþjóðlegir listamenn, þar af sjö íslenskir. Sýningarstjórar eru Elísabet Brynhildardóttir og Selma Hreggviðsdóttir. 

Meðfram opnun Jóns Laxdal Halldórssonar mun Samúel Jóhannsson opna sýninguna Samúel í vestursal Listasafnsins og er sú sýning hluti af sýningaröð sem mun standa til 13. mars og innihalda 4 stuttar sýningar. Aðrir sýnendur eru Jonna – Jónborg Sigurðardóttir, Baldvin Ringsted og Noemi Niederhauser. 

Jón Laxdal Halldórsson
…úr rústum og rusli tímans
Listasafnið á Akureyri, 16. janúar - 13. mars

Jón Laxdal Halldórsson (f. 1950) nam heimspeki við Háskóla Íslands og gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974. Jón var einn þeirra sem stóðu að blómlegri starfsemi Rauða hússins á Akureyri og setti þar upp sína fyrstu einkasýningu árið 1982. Klippimyndir hafa verið hans helsta viðfangsefni allar götur síðan. Verkum Jóns má lýsa sem ljóðrænni naumhyggju en þau spanna í raun mun víðara svið. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum sýningum víðs vegar um heim og þau er að finna á fjölda safna.

Á sýningunni …úr rústum og rusli tímans má sjá verk frá löngum ferli Jóns Laxdal Halldórssonar sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

Samsýning
í drögum / Prehistoric Loom IV
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús, 23. janúar - 28. febrúar

Sýningin í drögum / Prehistoric Loom IV skoðar teikninguna sem tímabil í ferli listsköpunar, nánast hulið ferli sem markar andartak milli hugsunar og framkvæmdar. Í þessu óræða rými má greina bergmál persónulegra og faglegra tengsla sem einkenna samfélög listamanna. í drögum / Prehistoric Loom IV er ávöxtur þeirra sambanda sem mynduðust hjá meistaranemum við Glasgow School of Art í Skotlandi árið 2014.

Sýningin var fyrst sett upp í No Toilet Gallery í Seoul í Suður-Kóreu, því næst í Yada Shimin Gallery í Nagoya í Japan og nú síðast á listahátíðinni Glasgow Open House Art Festival, vorið 2015. Segja má að sýningin, eða sýningarröðin,
sé lífræn í formi þar sem hún breytist í hverri borg. Nýir listamenn bætast við og koma þannig með ný innlegg í hið sídýpkandi samtal. Að þessu sinni sýna 26 listamenn víðs vegar að úr heiminum, þar af sjö íslenskir.

Listamenn: Kelli Sims, Sasha Panyuta, Fanny Wickstrom, Selma Hreggviðsdóttir, Katrina Valle, Marysia Gacek, Vigdis Storsveen, Ying Cui, Jonathan Cook, Jack Cheetham, Emily Mc Farland, Heejoon Lee, Saejin Choi, Alexandra Sarkisian, Lauren Hall, Kirsty Palmer, Guo-Liang Tan, Elísabet Brynhildardóttir, Aniara Oman, Malie Robb, Simon Buckley, Anna Hrund Másdóttir, Klængur Gunnarsson, Maria Toumazou, Ólöf Helga Helgadóttir, Freyja Reynisdóttir, Guðmundur Thoroddsen.

Sýningarstjórar: Elísabet Brynhildardóttir og Selma Hreggviðsdóttir.

Samúel Jóhannsson
Samúel
Listasafnið á Akureyri, Vestursalur, 16. - 28. janúar

Samúel Jóhannsson er fæddur á Akureyri 1946. Hann vakti fyrst athygli 14 ára gamall fyrir sérkennilegar andlitsmyndir á skólasýningu Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann hefur verið virkur í myndlist samfellt frá árinu 1980 og vinnur með akrílmálningu, vatnsliti, blek, lakk og járn.

Líkt og á fyrri sýningum Samúels er viðgangsefnið mannslíkaminn og andlitið. Að þessu sinni einbeitir hann sér fremur að túlkun andlitsins en formum hinna ýmsu líkamshluta. Myndmálið er sterkt, bæði hvað varðar liti og form og svipbrigði andlitsins er hrjúft. Stundum virðist Samúel vinna með „óbærilegan léttleika tilverunnar“ – hughrif sem skapa léttúð og þunga í senn, en eru ekki svo fjarri manneskjunni þegar á allt er litið. Myndlistasýningar Samúels eru orðnar fjölmargar. Hann hefur haldið rúmlega 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis, síðast í sýningu Listasafnsins Sköpun bernskunnar vorið 2015.