Opnun í Listasafninu á Akureyri 17. ágúst

ANAMNESIS / SILENCE

Laugardaginn 17. ágúst kl. 15 opnar í Listasafninu á Akureyri sýning á verkum listamannanna Janne Laine og Stefáns Boulter.

Listmálarinn Stefán Boulter (f. 1970) hefur verið virkur þátttakandi innan hinnar svonefndu Kitsch-hreyfingar, bæði sem einn af boðberum hennar og sterkur áhrifavaldur. Heimspeki listlíkisins (kitsch) hefur haft það að leiðarljósi að skapa hugmyndafræðilegan grundvöll sem leggur m.a. áherslu á vandað handverk með aðferðum gömlu meistaranna, húmanísk viðhorf, hluthyggju og fegurð hins ljóðræna.

Finninn Janne Laine (f. 1970) fæst við náttúruna og nálgast hana með hefðbundnum og nútímalegum hætti í senn. Hann umbreytir ljósmyndum sínum af landslagi með sérstakri tækni (e. photogravure) sem á rætur að rekja til árdaga ljósmyndarinnar snemma á 19. öld og byggist á ætingu. Í verkum hans bregður fyrir kunnuglegum þemum ur sögu landslagslistarinnar, yfirlætislaust og án allrar kaldhæðni. Áhorfandanum er boðið á staði sem hann þekkir kannski ekki en kannast samt við á einhvern óræðan hátt.

Sýningin stendur til 6. október og er opið út ágústmánuð kl. 9-17 alla daga nema mánudaga en frá og með 1. september er opnunartíminn kl. 13-17 alla daga nema mánudaga og þriðjudaga. Aðgangur er ókeypis.

Meginstyrktaraðilar Sjónlistamiðstöðvarinnar eru Flugfélag Íslands og Flytjandi.