Ragnar Hólm opnar í Mjólkurbúðinni

Ragnar Hólm opnar í Mjólkurbúðinni
Ragnar Hólm Ragnarsson.

Á skírdag kl. 14 opnar Ragnar Hólm sýningu á nýjum vatnslitamynd og málverkum í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri. Þetta er níunda einkasýning Ragnars sem hefur stigið fjörugan dans við listagyðjuna á síðustu árum en fyrstu sýningu sína hélt hann vorið 2010. Við opnunina á skírdag í Mjólkurbúðinni ætla Pálmi Gunnarsson og Kristján Edelstein að leika létta tónlist af fingrum fram.

Á sýningunni er að finna röð vatnslitamynda af þekktum húsum í bænum en einnig landslagsmyndir, myndir tengdar fluguveiði og myndir af fólki. Titill sýningarinnar vísar annars vegar til þess að vetur breytist í vor en hins vegar til þess að á þessum árstíma er allra veðra von, stundum nái vetur konungur aftur tímabundið yfirhöndinni á vorin.

Ragnar Hólm hefur sótt námskeið í myndlist en mest munar um einkakennslu hjá Guðmundi Ármann Sigurjónssyni myndlistarmanni sem staðið hefur nær óslitið síðustu sex árin. Ragnar hefur lengst af aðallega sýnt vatnslitamyndir en á síðustu tveimur sýningum hafa stór og smá olíumálverk skotið upp kollinum og að þessu sinni verða akrýlmálverk einnig til sýnis.

Dagsdaglega starfar Ragnar Hólm Ragnarsson á Akureyrarstofu sem verkefnastjóri upplýsinga– og kynningarmála fyrir Akureyrarbæ.