Samtvinnað - síðustu sýningardagar

Framundan eru síðustu dagar sýningar Lilýjar Adamsdóttur, Samtvinnað, sem staðið hefur í Deiglunni síðustu vikurnar en henni lýkur næstkomandi sunnudag eftir að hafa verið framlengd um viku.

Á sýningunni sýnir Lilý verk sem unnin eru út frá ullinni og skoðar hin smæstu ullarhár og þeirra fíngerðustu hreyfingar. Með þeim ferðast hún inn í þráðinn og veldur fíngerðri bjögun á formi með rísandi spennu sem hnígur þegar toppnum er náð. Með íslenskan ullarþráð í hönd veltir hún fyrir sér hugtökum eins og upphafi, endi, efni, afurð, orsök, afleiðingu, tækifæri og fegurð.

Lilý vinnur með vef endurtekninga í textíl þar sem skynjun á hreyfingu þráðarins, ljóðræn teikning hans og frásögn eru til skoðunar. Niðurstaða hugleiðinganna birtist í prjónuðum verkum sem bjóða áhorfandanum upp á sjónrænt samtal.

Lilý Adamsdóttir er fædd árið 1985. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 með BA gráðu í myndlist. Um þessar mundir stundar hún diplómanám við textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í sýningum og verkefnum hér á landi og erlendis. Í verkum sínum notar hún margskonar aðferðir s.s. gjörninga, vídeó, teikningar, textíl og innsetningar.

Sýningunni lýkur næstkomandi sunnudag, 15. júní, og er opin alla daga fram að lokun kl. 10-17. Aðgangur er ókeypis.