Síðasta sýningarhelgi SJÁVARSÝN

Síðasta sýningarhelgi SJÁVARSÝN í Listasafninu er núna 8. - 9. júní. Á sýningunni má sjá fjölmargar af perlum íslenskrar myndlistar. Hér gefur að líta úrval verka úr fórum Listasafns Íslands þar sem íslenskir listamenn hafa sótt innblástur sinn til hafsins og veitir sýningin áhugaverða yfirsýn yfir hvernig þeir hafa nálgast þetta viðfangsefni í gegnum tíðina.

Þjóðin var mótuð af hugsunarhætti landbúnaðarsamfélagsins fram undir lok síðari heimsstyrjaldar og fengust listamenn næstum eingöngu við landslagsmyndir fram að þeim tíma. Þegar líða tók á fjórða áratuginn viku rómantískar náttúrulýsingar, sem hjálpuðu til við að sameina þjóðina í sjálfstæðisbaráttunni, fyrir persónulegri og fjölbreyttari hugarefnum um leið og sjávarútvegurinn festi sig í sessi sem aðalatvinnuvegur landsins. Þótt Íslendingar hafi lengi sótt sjóinn og búi flestir við ströndina fer ekki mikið fyrir hafinu í okkar myndlistarsögu. Á því eru þó ýmsar merkilegar undantekningar eins og sjá má á þessari sýningu sem skartar verkum eftir marga af okkar þekktustu myndlistarmönnum á borð við Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Ásgrím Jónsson og Kristínu Jónsdóttur. Hafið er rauði þráðurinn í verkunum en efnistök þessara gömlu meistara eru af ýmsum toga.