Sirkussmakk í Listasafninu

Fimmtudaginn 11. júlí kl. 16-17 verður haldin sirkussmiðja í Listasafninu undir yfirskriftinni Sirkussmakk. Verkefnið er hluti af Listasumri 2019 og gefur Akureyringum tækifæri til að spreyta sig á grunnstoðum sirkuslistanna. Alls verða sirkussmiðjurnar í fjórar á Listasumri. Viðfangsefnin verða jafnvægislistir, húllahopp, djöggl og akró. Kennslan er miðuð við getu tólf ára og eldri en yngri börn eru velkomin með eldri systkinum eða foreldrum sem aðstoða þau. 

Fyrsta smiðjan fjallar um leyndardóma jafnvægislistanna. Þátttakendur munu læra á eigið jafnvægi, læra að halda jafnvægi á ýmsum hlutum og að lokum halda jafnvægi í samvinnu við félaga okkar.

Ókeypis er á smiðjuna en skráning er nauðsynleg og HÉR er hægt að skrá þátttöku. Athugið að aðeins 30 þátttakendur komast í smiðjuna.

Sirkussmakk hlaut styrk frá Listasumri.

Samstarfsaðilar Listasumars eru: Akureyrarbær, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Rósenborg, Gilfélagið, Sundlaug Akureyrar, Öldrunarheimilið Hlíð, Iðnaðarsafnið, Amtsbókasafnið á Akureyri, Bílaklúbbur Akureyrar og Geimstofan.