Sólarbögglar - opnun á laugardaginn í Deiglunni

Laugardaginn 15. nóvember kl. 15 verður opnuð í Deiglunni á Akureyri ljósmyndasýningin Sólarbögglar. Sýningin er samstarfsverkefni Listhúss í Fjallabyggð og Listasafnsins á Akureyri og á henni gefur að líta 30 ljósmyndir sem nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Tröllaskaga tóku með nálarauga ljósmyndun (solargraphy). Listamennirnir Stanley Ng og Ceci Liu komu frá Hong Kong til Íslands í febrúar síðastliðnum með yfir 50 ?pinhole? myndavélar sem notaðar voru fyrir sýninguna. Slíkar myndavélar hafa örlítið ljósop, enga linsu og samanstanda vanalega af boxi með gati á einni hlið sem safnar ljósi frá umhverfinu og snýr því á hvolf. Af þeim sökum þarf langan lýsingartíma en allar myndirnar á sýningunni eru með lýsingartíma allt að tveimur mánuðum.

Listhús í Fjallabyggð er sjálfseignarstofnun sem rekur m.a. gestavinnustofur á Ólafsfirði og skipuleggur skiptinám í samvinnu við listamenn. Sýningin, sem er haldin með stuðningi Fotologue Culture í Hong Kong og Menningarráðs Eyþings, stendur til 7. desember og er opin þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.