Taktu þátt í Vorsýningu Listasafnsins

Taktu þátt í Vorsýningu Listasafnsins
Frá Sumarsýningunni 2017.

Listasafnið á Akureyri efnir til sýningar á verkum eftir norðlenska myndlistarmenn 18. maí - 29. september 2019. Dómnefnd velur úr innsendum verkum listamanna sem búa og/eða starfa á Norðurlandi eða hafa tengingu við svæðið. Umsóknarfrestur er til og með 15. mars næstkomandi. 

Vor/Sumar/Haustsýningar voru lengi fastur liður í sýningarhaldi hér á landi og erlendis lifa þær víða enn góðu lífi.

Vor/Sumar/Haustsýningar Listasafnsins á Akureyri er tvíæringur og endurvekur þá góðu hefð að sýna hvað listamenn á svæðinu eru að fást við. Hún verður því fjölbreytt og mun gefa góða innsýn í líflega flóru myndlistar á Akureyri og Norðurlandi. 

Sérstakt rafrænt eyðublað má sjá HÉR

  • Eyðublaðið er einungis rafrænt og þarf ekki að prenta út.
  • Umsækjandi fyllir út grunnupplýsingar og hleður upp 1-3 myndum sem dómnefndin mun fjalla um. Mikilvægt er að myndirnar séu í góðri upplausn sem má nýta í prentaða sýningarskrá og annað kynningarefni. Stærðin er um það bil 150x100 mm (1.772x1329 pixlar) og 300 pt. 
  • Vídeóverk skal senda í gegnum wetransfer.com á netfangið hlynurhallsson@listak.is
  • Stuttur texti skal fylgja þar sem listamaðurinn fjallar um verkin og sjálfan sig. Mjög mikilvægt er að textinn sé vandaður og nothæfur í kynningarefni. 40-50 orð. Umsækjandi hleður textanum upp sem Word skjali með hnappnum „Almennt um verkin“.
  • Sérstakar upplýsingar um verkin eru færðar inn: nafn, ártal, stærð og tækni.
  • Mynd þarf að fylgja af listamanninum sem verður nýtt í sýningarskrá og annað kynningarefni. Myndin þarf að vera í 300 pt. upplausn.
  • Að síðustu þarf að fylgja texti um viðkomandi listamann, 40-80 orð, og örstutt ferilskrá, 40-80 orð. Ef óskað er eftir tæknilegri aðstoð er viðkomandi bent á að hafa samband við Hlyn Hallsson, safnstjóra, á netfangið hlynurhallsson@listak.is eða í síma 461 2619. 

Dæmi um texta:

1)
Verkið er stafrænn sýndarveruleikaþáttur sem gerist á framandi sólarströnd og fjallar um stafræna þrívíddareftirmynd af höfundinum sem tekst á við þá raun að verða mennskur. Það vekur upp hugmyndir um gervigreind og meðvitund verunnar í einskonar gjörningi þegar listamaðurinn afritar sig og kennir verunni um mennskt eðli. Hér fjallar listamaðurinn um eðli mannsins og samband hans við umhverfið. Verkið fær lánað útlit draumaeyjunnar þar sem heitir vindar, volgur sjór og heiðskýr himinn tákna hið fullkomna líf. Það er mikilvæg tenging okkar mannanna við eigin veruleikaflótta. 

2)
„List mín sprettur aðallega af þemabundnum hugsunum, tilfinningum og skynrænum upplifunum af mínu nánasta umhverfi. Ég er safnari; týni upp hluti og fanga hugmyndir sem ná athygli minni. Hugmyndirnar eiga oft uppruna sinn í persónulegri fortíð og minningum, undirmeðvitund minni og tilveru. Þær geta myndgerst af viðfangsefnum daglegs lífs sem einhvern veginn vekja þær upp. Ég er fremur opin fyrir umhverfinu og vakandi fyrir áhrifum þess á mig og verkin mín. En stundum held ég til í höfðinu á mér og eru þá verkin því marki brennd.“