Þriðjudagsfyrirlestur: Auður Ösp Guðmundsdóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Auður Ösp Guðmundsdóttir
Auður Ösp Guðmundsdóttir.

Þriðjudaginn 29. janúar kl. 17-17.30 heldur Auður Ösp Guðmundsdóttir, vöru- og leikmyndahönnuður, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni „Og mig sem dreymdi alltaf um að verða uppfinningamaður“. Þar mun hún tala um námsárin í Listaháskóla Íslands, þau ólíku verkefni sem falla undir vöruhönnun og vinnu sína hjá Leikfélagi Akureyrar og við sýninguna Kabarett.

Auður Ösp Guðmundsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands 2010. Síðan þá hefur hún starfað sem vöru- og upplifunarhönnuður ásamt því að sjá um sýningarhönnun fyrir Spark hönnunargallerí og Hönnunarsafn Íslands. Undanfarna mánuði hefur hún starfað hjá Leikfélagi Akureyrar við búninga- og leikmyndahönnun fyrir sýninguna Kabarett sem nú er á fjölum leikhússins. 

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Tumi Magnússon, myndlistarmaður, Vigdís Jónsdóttir, listfræðingur, Margrét Jónsdóttir, leirlistarkona, Magnús Helgason, myndlistarmaður, Björg Eiríksdóttir, myndlistarkona og Kate Bae, myndlistarkona.