Þriðjudagsfyrirlestur: Björg Eiríksdóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Björg Eiríksdóttir
Björg Eiríksdóttir.

Þriðjudaginn 5. mars kl. 17-17.40 heldur Björg Eiríksdóttir, myndlistarkona, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Að elta innsæið. Þar mun hún fjalla um tilurð og innihald valinna verka sinna og gefa örlitla innsýn í sköpunarferlið eða þá rannsókn sem er í gangi vegna sýningar sem verður í Listasafninu í október.

Björg hefur útfært hugmyndir sínar í ýmsa miðla eins og málverk, teikningu, þrykk, útsaum og vídeó. Viðfangsefnið hefur verið innra líf mannslíkamans og samskipti hans við umhverfið í gegnum skynjun. Samskiptin við verkin í vinnuferlinu hafa einnig verið í forgrunni og í þeim má oft finna munstur, lagskiptingu, nálægð og tíma. 

Björg Eiríksdóttir hefur haldið 10 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga og er nú starfandi bæjarlistamaður. Hún lauk MA í listkennslu frá HA og LHÍ vorið 2017, diplómu í myndlist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2003 og B.Ed. frá KHÍ 1991. Hún starfar við myndlist samhliða kennslu myndlistargreina við VMA.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins. Næstu fyrirlesarar Kate Bae, myndlistarkona og Vigdís Jónsdóttir, listfræðingur.