Þriðjudagsfyrirlestur: Brjóstvit

Þriðjudagsfyrirlestur: Brjóstvit
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir.

Þriðjudaginn 27. september næstkomandi kl. 17 heldur Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, myndlistarkona, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Brjóstvit. Þar fjallar hún um hversu langt er hægt að komast með áhugamál og ástríðu þegar dugnaður, áræðni og ástundun eru lögð í verkefnið og treyst er eigin ákvörðunum. Aðgangur er ókeypis.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera athafnasöm myndlistarkona. Aðalheiður starfrækti galleríið Kompan í 8 ár á Akureyri, tók virkan þátt í uppbyggingu Listagilsins og er einn stofnenda Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Hún hefur verið í sýningarnefnd Skaftfells á Seyðisfirð, gjaldkeri Gilfélagsins og varaformaður Myndlistarfélagsins auk þess að vera meðlimur í Dieter Roth akademíunni. Árið 2011 keypti Aðalheiður Alþýðuhúsið á Siglufirði þar sem hún hefur komið upp vinnustofu, endurvakið Kompuna og staðið fyrir mánaðarlegum menningarviðburðum.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Thomas Brewer, myndlistarmaður, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, listakona, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, myndlistarkona, Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður, Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.