Þriðjudagsfyrirlestur: Heiða Eiríksdóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Heiða Eiríksdóttir
Heiða Eiríksdóttir.

Þriðjudaginn 25. febrúar kl. 17-17.40 heldur Heiða Eiríksdóttir, tónlistarkona, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Forvitni og ímyndunarafl. Í fyrirlestrinum fjallar Heiða um hinar ýmsu aðferðir sem hún hefur notað í listsköpun sinni og vinnu í gegnum tíðina og hvernig forvitni og það að viðhalda henni getur haft jákvæð áhrif á sköpun. Hún hefur gítar með í för og tekur lagið, en fer líka yfir feril sinn og reynir að varpa örlitlu ljósi á það hvernig er að vera sjálfstætt starfandi listamaður á Íslandi.

Heiða hefur fengist við tónlistarsköpun í yfir 25 ár ásamt því að skrifa um tónlist og gera útvarpsþætti. Síðari ár hefur hún einnig lagt stund á myndlist, en hún tók fornám í myndlist í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Heiða er með MA-gráðu frá Háskóla Íslands frá heimspekideild og skrifaði lokaritgerð um verufræði Martins Heidegger árið 2011. Frá sama skóla lauk hún BA-gráðu í heimspeki og skrifaði lokaritgerð um tónlistarfrumspeki Arthurs Schopenhauer.

Heiða hefur gefið út sólóplötur undir sínu nafni og undir nafninu Heidatrubador, en einnig hefur hún gefið út kassettur, plötur og geisladiska með hljómsveitunum Unun, Heiða og heiðingjarnir, Hellvar, Dys, Ruddinn og Something Else. Hún vinnur nú við dagskrárgerð á Rás 2 auk þess að skrifa um plötur fyrir Morgunblaðið og lesa inná auglýsingar, en einnig vinnur hún að sinni tónlistarsköpun, skrifum og myndlist sem sjálfstætt starfandi listamaður.   

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Næstu fyrirlestra halda Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, og Kenny Nguyen, myndlistarmaður.