Þriðjudagsfyrirlestur: Hundur í óskilum - Hundalógík

Þriðjudagsfyrirlestur: Hundur í óskilum - Hundalógík
Hundur í óskilum

Þriðjudaginn 27. janúar kl. 17 heldur hljómsveitin Hundur í óskilum, skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki Stephensen, fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hundalógík. Þar munu þeir félagar velta fyrir sér Hundi í óskilum og hvort eitthvað sé á bak við hann.

Hundur í óskilum varð til í leikfélagspartíi á Dalvík fyrir 20 árum og ætlaði sér aldrei stóra hluti. Þrátt fyrir litlar væntingar í upphafi hefur hljómsveitin troðið upp við fjölbreyttar aðstæður beggja vegna Atlantsála, gefið út tvær plötur án þess að fara í stúdíó, haldið úti óskalagaþætti í útvarpi fyrir minnihlutahópa, haldið uppi innanlandsflugi Flugfélags Íslands, starfrækt tveggja manna leikhús og hlotið tvær grímur fyrir leikhústónlist en aldrei sungið í Frostrósum.

Þetta er annar Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Arnar Ómarsson, Pi Bartholdy, Margeir Dire Sigurðsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Elísabet Ásgrímsdóttir, Katrín Erna Gunnarsdóttir, María Rut Dýrfjörð, Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.