Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu: Giorgio Baruchello Athugasemdir um mælskufræði og málverk

Þriðjudaginn 2. desember kl. 17 heldur Giorgio Baruchello prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri undir yfirskriftinni Athugasemdir um mælskufræði og málverk. Þar mun hann fjalla um hin ævagömlu en gleymdu tengsl milli mælskufræði og málverka og sýna fram á hvernig aðalhugtök mælskufræðinnar hafa verið notuð í sköpun listaverka og túlkun þeirra. Erindið er flutt á ensku en íslenskar þýðingar tæknilegra orða verða sýndar á glærum.

Giorgio Baruchello lauk doktorsnámi í heimspeki frá Háskólanum í Guelph í Kanada. Meðal þess sem hann rannsakar er félagsheimspeki, kenningar um gildi og verðmæti og hugmyndasaga. Hann ritstýrir veftímaritinu Nordicum-Mediterraneum sem vistað er innan Háskólans á Akureyri.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá tíundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.