Þriðjudagsfyrirlestur: Ine Lamers

Þriðjudagsfyrirlestur: Ine Lamers
Ine Lamers.

Þriðjudaginn 20. nóvember kl. 17 heldur myndlistarkonan Ine Lamers Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, sal 04, undir yfirskriftinni Remote. Þar kynnir hún tvö af verkefnum sínum. Þau eru unnin á mismunandi tíma og eru ólík að innihaldi og í nálgun. Samt sem áður eru aðal umfjöllunarefni beggja verkefnanna sjálfsmynd og samband mannsins við umhverfi sitt. Aðgangur er ókeypis. Mondriaan sjóðurinn styrkir dvöl Ine Lamers á Íslandi. 

Ine mun segja frá vídeóverkinu Not she, sem er í eigu Listasafnsins á Akureyri, hugmyndinni á bakvið verkið, gerð þess o.fl. Einnig mun hún fjalla um verkefni sem hún vinnur að um þessar mundir í Hrísey undir vinnuheitinu Remote Sensing og tengingu þess við önnur eldri verkefni. Auk þessa verða sýnd myndskeið sem hún vann í listamannadvöl á Ólafsfirði þar sem landslagið og draumkenndir þættir þess eru viðfangsefnið.

Þessi Þriðjudagsfyrirlestur er sá síðasti á árinu en fyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins.