Þriðjudagsfyrirlestur - Örlagavefur

Þriðjudagsfyrirlestur - Örlagavefur
Ragnheiður Björk Þórsdóttir.

Þriðjudaginn 20. október kl. 17 heldur Ragnheiður Björk Þórsdóttir textíllistamaður og kennari fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Örlagavefur. Þar fjallar hún um sögu og hlutverk vefnaðar og myndvefnaðar sem og þær tæknibreytingar sem hafa átt sér stað síðan á miðöldum. Sýning hennar, Rýmisþræðir, hefur staðið yfir í Listasafninu, Ketilhúsi síðan í september og mun Ragnheiður tengja hana við fyrirlesturinn. 

Eftir brautskráningu frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóli Íslands 1984 stundaði Ragnheiður meistaranám í textíl við John F. Kennedy University frá 1984-1985. Hún lauk uppeldis- og kennslufræði frá KHÍ 1990 og lauk M.ed. námi frá Háskólanum á Akureyri 2009. Samhliða því að starfa sem textíllistamaður hefur Ragnheiður verið kennari í Verkmenntaskólanum á Akureyri í 27 ár og kennt vefnað, listasögu og hönnunar- og textílsögu. Hún er formaður Félags íslenskra vefnaðarkennara og félagi í Textílfélagi Íslands og SÍM. Ragnheiður var bæjarlistamaður á Akureyri 2014 - 2015.

Fyrirlesturinn er sá fjórði í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir, Þorlákur Axel Jónsson, Haraldur Ingi Haraldsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir og Þórhallur Kristjánsson.