Þriðjudagsfyrirlestur: Rósa Kristín Júlíusdóttir - Himintjöld og dansandi línur

Í dag, þriðjudaginn 18. nóvember, kl. 17 heldur myndlistarkonan- og kennarinn Rósa Kristín Júlíusdóttir fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Himintjöld og dansandi línur: Samvinna í listum og innsetning sem listræn menntunarrannsókn. Þar ætlar Rósa að tala um rannsókn sem hún gerði í samnorrænu og baltnesku verkefni og fjallar um listræna samvinnu hennar og Karls Guðmundssonar, mál- og hreyfihamlaðs listamanns, og annað tengt samtímalistum og menningu fatlaðra.

Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá áttundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Stefán Boulter, Giorgio Baruchello og Kazuko Kizawa.