Útskriftarsýning VMA

Laugardaginn 26. nóvember kl. 15 verður útskriftarsýning nemenda listnáms- og hönnunarbrautar VMA opnuð í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Sýning á lokaverkefnum nemenda hefur lengi verið fastur liður í starfsemi listnáms- og hönnunarbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð.  

Á útskriftarsýningunni má meðal annars sjá fatahönnun, vöruhönnun, ljósmyndir og búningahönnun. Sýningin gefur góða innsýn í hið víðtæka nám sem fram fer á listnáms- og hönnunarbraut VMA, en þetta er í þriðja sinn sem hún er haldin í samstarfi við Listasafnið á Akureyri. 

Fimmtudaginn 1. desember kl. 12.15-12.45 verða útskriftarnemarnir með leiðsögn um sýninguna. Aðgangur ókeypis.

Útskriftarsýningin stendur til 11. desember og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Nemendurnir eru Alma Hrund Hafrúnardóttir, Árþóra Ingibjörg Álfgeirsdóttir, Björg Ingadóttir, Fjölnir Freyr Sævarsson, Inga Líf Ingimarsdóttir, Júlía Ósk Júlíusdóttir, Regína Jóhannesdóttir, Sunneva Birgisdóttir og Veronika Arnardóttir.