Viðurkenningar GraN 2015

Dómnefnd hefur nú skilað niðurstöðum varðandi þá grafíklistamenn er hljóta viðurkenningu í tengslum við samsýninguna GraN 2015 í Listasafninu á Akureyri sem staðið hefur yfir síðan 24. október og lýkur 13. desember. Verðlaun fá þrír listamenn; Tomas Colbengtson, Jan Danebod og Anita Jensen.

Fyrstu verðlaun fær Saminn Tomas Colbengtson sem búsettur er í Svíþjóð. Verk hans eru sáldþrykk, einþrykk á aluminium-plötur, fjögur verk í seríu þar sem viðfangsefnið er nauðungarflutningar á Sömum á árunum 1950-1970. Verkin eru sterk pólitísk ádeila en um leið grípandi í fegurð sinni sem snertir hvern mann. 

Önnur og þriðju verðlaun hljóta Anita Jensen og Jan Danebod.  Anita er fædd í Finnlandi og vinnur með ljósmynda- og grafíklist. Í verkum sínum vinnur hún með japanskan og finnskan menningararf. Á síðustu 20 árum hefur hún safnað saman myndefni sem hún túlkar á persónulegan hátt. Verkin bera með sér mikla dýpt og þokka japanskrar menningar. Hún túlkar hefð japanskrar fagurfræði út frá eigin sjónarhorni og tengir það með hjálp tækninýjunga í listgrafík.

Jan Danebod er fæddur í Danmörku og er með rætur í hip-hop menningunni. Hann sýnir fjórar kraftmiklar tréristur sem fjalla um borgarumhverfi nútímamannsins, breytingar á samsetningu íbúa, neyslu og vanda heimilislausra. Efnistök hans eru sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að hann notar hér klassískan miðil; tréristuna.

Fyrstu verðlaun að andvirði 372.000 króna eru styrkt af Gilfélaginu. Um er að ræða mánaðardvöl í gestavinnustofu Gilfélagsins, í Listagilinu á Akureyri, tíu daga sýningu í Deiglunni og kostnað við yfirsetu og opnun sýningarinnar.

Önnur og þriðju verðlaun að andvirði 298.000 króna eru styrkt af Íslenskri Grafík. Um er að ræða sýningu, sem stendur yfir í þrjár helgar í húsakynnum félagsins að Tryggvagötu 17 í Reykjavík, aðstoð við uppsetningu sýningarinnar sem og kostnað við opnun, auglýsingar, plaköt og yfirsetu. Einnig pökkun, flutning og fjögurra daga gistingu í húsnæði SÍM. 

Dómnefnd skipuðu Guðbjörg Ringsted grafíklistakona, Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Sveinbjörg Hallgrímsdóttir grafíklistakona. 

Styrktaraðilar GraN eru Menningarráð Eyþings, Sóknaráætlun Norðurlands Eystra, Nordisk Kulturfond, Norsk-islandsk kultursamarbeid og Listasafnið á Akureyri.