Afrakstur Allt til enda má nú sjá í fræðslurýminu

Um síðustu helgi fór fram í Listasafninu á Akureyri myndlistarvinnustofa í verkefninu Allt til enda. Selma Hreggviðsdóttir, myndlistarmaður, bauð börnum á aldrinum 6 til 9 ára að kynnast ferli listamannsins. Þátttakendur unnu bæði samvinnuverkefni og sjálfstæð verk. Áhersla var lögð á að skoða gaumgæfilega hluti sem fólk gefur ekki mikinn gaum í daglegu lífi. Hvaðan koma hlutir og hvaða hlutverki gegna þeir í lífi okkar? Er pizza bara pizza? Hvað er listsýning? Vinnustofan var óvissuferð þar sem þátttakendur sköpuðu og höfðu áhrif á framvindu og niðurstöðu verunnar saman í Listasafninu. 

Börnin tóku virkan þátt í öllu ferlinu, allt frá því að leita sér innblásturs, skapa verkin í samstarfi við Selmu og sýna afraksturinn á sérstakri sýningu sem Hlynur Hallsson, safnstjóri, opnaði formlega í safnfræðslurými Listasafnsins. Sýningin stendur til 4. febrúar 2024. 

Allt til enda er styrkt af Safnasjóði og Akureyrarbæ. Þar fá börn á grunnskólaaldri tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu sem þau undirbúa frá upphafi til enda. 

Sýnendur myndlistarvinnustofunnar eru: 

Amanda Þorsteinsdóttir,
Elma Lind Halldórsdóttir,
Erika Ósk Halldórsdóttir,
Glóa Hrannarsdóttir,
Helga Ísaksdóttir,
Ísabel Talía Cambray Alexdóttir,
Margrét Erla Karlsdóttir,
Stella Hansen,
Yrsa Líf Agnarsdóttir.