Fríða Karlsdóttir

Fríða Karlsdóttir
Mjúkt
31.08.2024 – 09.03.2025
Salur 12 

„Innvols og áferð. Ókembdur hnoðri sem flækir þig ef þú greiðir. Slípaður viðarbútur með smáum flísum sem stinga. Leðja, mjúk og hlý í sólinni, en steinar og rætur skrapa á þér fæturna. Ég dreg í mig pækilinn og breytist í formlausa pollinn er lekur eftir götunni, niður í holræsi og blandast við óútskýrða vökva – svamlandi, gutlandi.“

Fríða Karlsdóttir (f. 1994) útskrifaðist af myndlistarbraut Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam í Hollandi 2020. Hún býr og starfar á Akureyri, þar sem hún er hluti af sjálfstæða listhópnum Kaktus, sem stendur fyrir margs konar menningarstarfsemi í Ketilhúsinu á neðstu hæð Listasafnsins.

Fríða vinnur með sögusagnir í gegnum blandaða miðla, vídeóverk, skúlptúra, textaverk og ýmiss konar handverk. Verk hennar líkjast oft náttúrulegum fyrirbærum, þau innihalda sterkar táknmyndir og þannig dramatíserar hún hversdagsleikann og segir frá einlægum upplifunum. Fríða hefur sýnt bæði hér á landi og erlendis.