Allt til enda: Selma Hreggviðsdóttir

Þriðja og síðasta listvinnustofan undir yfirskriftinni Allt til enda fer fram í Listasafninu á Akureyri dagana 6.-7. janúar 2024. Þá mun Selma Hreggviðsdóttir, myndlistarmaður, leiða börn í 1.-4. bekk gegnum ferli listamannsins, allt frá því að fá hugmynd, vinna listaverk og finna bestu leiðina til að setja verkið fram á sýningu. Notast verður við sýningar Listasafnsins sem innblástur fyrir gerð listaverka. Hugmyndum um skala og afstöðu verður velt upp og hvernig stærð okkar hefur áhrif á upplifun á umhverfinu. Vinnustofan er óvissuferð þar sem þátttakendur skapa og hafa áhrif á framvindu og niðurstöðu samverunnar í Listasafninu. Eitt er víst að allt saman endar þetta með allsherjar sýningu sem þátttakendur skipuleggja sjálfir, þar sem listaverkin verða afhjúpuð með pompi og prakt. Sýningin stendur til 4. febrúar 2024. 

Selma Hreggviðsdóttir útskrifaðist með M.F.A. frá Glasgow School of Art 2014 og með B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands 2010. Einnig lauk hún meistaranámi í listkennslufræðum 2021 frá Listaháskóla Íslands. Selma var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021 og hefur hún sýnt ötullega hér heima og víða erlendis. Hún gekk til liðs við Kling og Bang eftir útskrift 2010 og hefur unnið og staðið að ýmsum útgáfum og öðrum sýningartengdum verkefnum samhliða. Selma hefur starfað sem stundakennari í Listaháskóla Íslands og Myndlistarskóla Reykjavíkur. 

Aldur: 1.-4. bekkur.
Tímasetning: 6. - 7. janúar kl. 11-13 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert en skráning nauðsynleg.
Skráning: heida@listak.is 

Allt til enda felst í því að bjóða börnum á grunnskólaaldri að sækja þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri og vinna þar verk undir leiðsögn kraftmikilla og spennandi listamanna og hönnuða. Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í öllu ferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið í samstarfi við leiðbeinanda og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett er upp í lok listvinnustofunnar og er öllum opin. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu á Akureyri; allt frá upphafi til enda.

Allar nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri, á netfanginu heida@listak.is eða í síma 892-0881.  

Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Safnasjóðs. Verkefnið er styrkt af Safnasjóði og Akureyrarbæ.