Alþjóða safnadagurinn: „Söfn, sjálfbærni og vellíðan“

Í tilefni Alþjóða safnadagsins, 18. maí næstkomandi, verður ókeypis inn á Listasafnið og boðið upp á leiðsögn kl. 15. Þá mun Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, fræða gesti um valin verk á yfirstandandi sýningum safnsins. 

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur 18. maí ár hvert, en Alþjóðaráð safna, ICOM, hefur staðið fyrir deginum síðan 1977. Árlega velur ráðið deginum yfirskrift er tengist málefnum sem eru í brennipunkti í samfélaginu og er að þessu sinni „Söfn, sjálfbærni og vellíðan“.

Söfn hafa veigamiklu hlutverki að gegna í málefnum sem varða sjálfbæra þróun og vellíðan fólks í þeim samfélögum sem þau þjóna. Starfsemi þeirra byggir á trausti almennings auk þess sem þau tengja saman ólíka hópa og eru því í einstakri stöðu til þess að koma jákvæðum breytingum til leiðar. Söfn geta lagt lóð sín á vogarskálarnar og stutt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með ýmsum hætti, t.d. með því að beita sér gegn félagslegri einangrun og fyrir bættri andlegri heilsu, hlúa að fjölbreytileika og taka þátt í loftlagsaðgerðum.