Gleðilega páska!

Gleðilega páska!
Ragnar Kjartansson, The Visitors, 2012.

Listasafnið verður að venju opið alla páskana kl. 12-17. Hægt er að skoða 8 mismunandi sýningar í sölum safnsins.

Ragnar Kjartansson – The Visitors

The Visitors – óður vináttu við tónfall rómantískrar örvæntingar. Hópur vina og tónlistarmanna safnast saman í kjörlendi bóhemíunnar, í ljósaskiptunum, á hinum stórbrotna og hnignandi Rokeby Farm í Upstate New York. Staðurinn verður vettvangur þess sem Ragnar kallar feminískt, níhilískt gospel lag: marglaga portrett af vinum listamannsins, könnun á möguleikum tónlistar í kvikmyndaforminu og dregur titil sinn af síðustu plötu ABBA, The Visitors, sem mörkuð var aðskilnaði og ósigri. Lagið er samið við textabrot úr myndbandsverkum og gjörningum Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur. 

The Guardian valdi The Visitors besta listaverk 21. aldarinnar eftir að það var fyrst sett upp í Migrossafninu í Zürich 2012. Verkið hefur farið sigurför um helstu listasöfn heims og hefur einungis einu sinni áður verið sýnt á Íslandi, í Kling og Bang 2012. 

Ragnar Kjartansson (f. 1976) nam við Listaháskóla Íslands, Konunglegu Akademíuna í Stokkhólmi og Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Einkasýningar hans hafa verið haldnar í mörgum af virtustu listasöfnum heims og hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2009. 

Tónlistarfólk: Davíð Þór Jónsson, Gyða Valtýsdóttir, Kristín Anna Valtýsdóttir, Ólafur Jónsson, Þorvaldur Gröndal, Shahzad Ismaili, Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

Sköpun bernskunnar 2023

Þetta er tíunda sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp sem hluti af safnfræðslu, með það markmið að gera sýnilegt og örva, skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Þátttakendur vinna verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er manneskjan öll

Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Úlfur Logason og Hlaðgerður Íris Björnsdóttir. Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Klappir og grunnskólarnir Lundarskóli, Brekkuskóli og Síðuskóli, sem og Minjasafnið á Akureyri / Leikfangahúsið. 

Leikskólabörnin komu í Listasafnið í nóvember síðastliðnum og unnu sín verk undir stjórn Úlfs Logasonar og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa og sýningarstjóra. Myndmenntakennarar grunnskólanna sem taka þátt stýra vinnu sinna nemenda, sem unnin er sérstaklega fyrir sýninguna. 

Sköpun bernskunnar hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs 2020 til þriggja ára. Af því tilefni verður gefin út vegleg bók 2024, þar sem farið verður yfir verkefnið og sýningarnar. 

Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Sara Björg Bjarnadóttir - Tvær eilífðir milli 1 og 3

„Þú gengur meðfram sjávarsíðunni. Virðir fyrir þér óendanleika sjóndeildarhringsins en speglar inn á við, þar er heldur engan endi að finna. Til að ná skerpu þarf að afmarka.

Þú gengur inn, rýmið er afmarkað, afmarkað af líkama, framlenging af líkama. Líkami og rými eru eitt og hið sama en aðskilin í senn, eins og tveir vökvar í sama máli. Hugsun er líkamleg, það býr viska í líkamanum. Milli huga og líkama eru huglæg skil; tveir dropar í sama vatni. Vitundin svamlar milli líkama, huga, rýmis og allra rásanna sem flæða þar á milli.“

Sara Björg kafar út í rýmið og leyfir líkamlegri tengingu sinni við það að leiða sig áfram í framsetningu þessa verks – verks sem reynir að fanga tilfinningu, ástand eða tíma sem orð ná ekki utan um. Óáþreifanleg minning af nýliðnu tímabili stöðnunar. 

Sara Björg Bjarnadóttir (f. 1988) útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2015. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og einnig í Berlín, Vilníus, Los Angeles, Aþenu og London.

Guðjón Gísli Kristinsson - Nýtt af nálinni

Markmið Listar án landamæra er að vinna að menningarlegu jafnrétti fyrir fatlaða listamenn. Verkefnið stendur fyrir árlegri hátíð sem sýnir öll listform eftir bæði fatlaða og ófatlaða listamenn. Hátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár og er Listasafnið á Akureyri nú þátttakandi í fyrsta sinn.

Guðjón Gísli Kristinsson (f. 1988) sýndi fyrstu útsaumsmyndina sína á sýningu í Sólheimum sumarið 2020 og hefur síðan sýnt á samsýningum Listar án landamæra í Reykjavík og MeetFactory í Prag. Hann vinnur út frá ljósmyndum af raunverulegum fyrirmyndum og teiknar eftir þeim áður en verkið fer á strammann, þar sem það er saumað út af elju og ástríðu. Myndefni Guðjóns Gísla eru ýmist nánasta umhverfi eða íslenskt landslag, en nýlega hefur hann leitað innblásturs í hönnunartímarit og innanhússarkitektúr. Óháð myndefninu má sjá samhljóm í litavali, mynstrum og handbragði.

Ný og splunkuný - Verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri

Því ber að fagna að nú getur Listasafnið á Akureyri aftur hafist handa við kaup á verkum í safneignina. Sýningin Ný og splunkuný gefur yfirlit yfir verk sem safninu hafa verið gefin á síðustu árum en hafa ekki verið sýnd og splunkuný verk sem safnið hefur keypt. 

Eitt af meginhlutverkum listasafna er að safna myndlist og miðla safneigninni, enda mikilvægt að safna með reglubundnum hætti listaverkum sem endurspegla listasöguna. 

Í söfnunarstefnu Listasafnsins segir meðal annars: „Söfnunarsvið Listasafnsins á Akureyri er allt landið en jafnframt leggur safnið sérstaka áherslu á söfnun verka sem tengjast Norðurlandi.“ Móttaka gjafa takmarkast af því markmiði að Listasafnið byggi upp heillega og markvissa safneign. Safnstjóri og fulltrúar í Listasafnsráði fjalla um og taka ákvarðanir er varða móttöku gjafa og um kaup á nýjum verkum. Ákvörðunin byggir á söfnunarstefnu safnsins, markmiðum þess og stöðu safneignar á hverjum tíma. 

Verk eftirtalinna listamanna eru á sýningunni:

Agnieszka Sosnowska (f. 1971)
Björg Eiríksdóttir (f. 1967)
Gísli Guðmann frá Skarði (1927-1980)
Guðmundur Ármann Sigurjónsson (f. 1944)
Hafdís Helgadóttir (f. 1949)
Hafliði Hallgrímsson (f. 1941)
Jan Voss (f. 1945)
Jónborg Sigurðardóttir – Jonna (f. 1966)
Karl Guðmundsson (f. 1986)
Kristín K. Þórðardóttir Thoroddsen (1885-1959)
Lilý Erla Adamsdóttir (f. 1985)
Níels Hafstein (f. 1947)
Sigtryggur Bjarni Baldvinsson (f. 1966)

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

Innan rammans - Valin verk fyrir sköpun og fræðslu

Í fræðslu um myndlist er lítið fjallað um það sem gerist þegar listamaður afhendir nýjum eiganda fullunnið listaverk. Þegar um málverk er að ræða stendur valið um innrömmun eða engan ramma. Við innrömmun hefur tíðarandinn og ólíkur smekkur fólks mikil áhrif. Rammar eru fjölbreyttir og þeir dýrustu eru gjarnan útskornir, skreyttir, jafnvel gullmálaðir og gefa til kynna virðingu, munað og verðmæti. Áður fyrr var það einkum auðugt fólk í valdastöðum sem átti slík verk og oftar en ekki voru forstjórar málaðir eins og kóngafólk fyrri alda og verkinu komið fyrir í viðamiklum gullramma. 

Á sýningunni má finna valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri, sem öll eiga það sameiginlegt að vera í gullramma. Það er áhorfandans að meta gildi rammanna og sýningin á að fá áhorfandann til að ígrunda listina og hvers konar umgjörð henti hverju verki. Hvaða tilfinningar kalla gullrammarnir fram? Hvernig væru verkin í annars konar römmum eða hreinlega án ramma?

Stofn - Verk úr safneign Listasafns Háskóla Íslands

Listasafn Háskóla Íslands var stofnað 1980. Líkt og mörg háskólalistasöfn erlendis byggir það safneign sína að hluta til á gjöfum. Stofngjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002) vegur þar þyngst en alls gáfu þau safninu um 1200 verk. Listaverkagjafir þeirra til safnsins eru meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa borist. Einnig hafa ýmsir íslenskir listamenn eða dánarbú þeirra gefið safninu verk sín. Að öllu samanlögðu hafa Listasafni Háskóla Íslands verið gefin hátt í 1300 listaverk. Með innkaupum safnsins hefur verið aukið við listaverkaeignina og á Listasafn Háskóla Íslands nú um 1550 listaverk sem reglulega eru til sýnis í byggingum háskólans. 

Stofngjöfin til Listasafns Háskóla Íslands var að stórum hluta fjölmörg abstraktverk frá miðbiki og seinnihluta 20. aldar sem lagði grundvöll að einstöku safni. Á þessari sýningu verða sýnd abstraktverk eftir listamenn eins og Þorvald Skúlason, Karl Kvaran, Hörð Ágústsson, Guðmundu Andrésdóttur, Eyborgu Guðmundsdóttur o.fl.

Steinunn Gunnlaugsdóttir - blóð & heiður 

Verkið samanstendur af fjórum fánum sem blakta á fánastöngum á svölum Listasafnsins. Fánarnir eru afrakstur tilraunar þar sem þrír þættir voru bræddir saman: íslenski þjóðfáninn, leturgerðin Comic Sans og þeir stafir íslenska stafrófsins sem tákna hljóðin sem fólk gefur frá sér við sársauka: A, Á, Ó, Æ.

Steinunn Gunnlaugsdóttir (f. 1983) útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands vorið 2008 og tók þátt í listnámi í menningarstofnuninni Ashkal Alwan í Beirút í Líbanon veturinn 2013-2014.

Af gáskablandinni alvöru tekst hún á við hin fjölmörgu hugmyndafræðilegu og siðferðislegu kerfi sem mannskepnan skapar, fæðist inn í, lifir við og berst gegn. Með því að skoða og berhátta grunnstoðir hins siðmenntaða mannheims verður til efniviður fyrir tilraunir Steinunnar til að ávarpa samtímann.

Steinunn var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna sem listamaður ársins 2018. Árið 2021 fékk hún verðlaun úr styrktarsjóði Richard Serra fyrir framlag sitt til skúlptúrlistar.