Leiðsögn á síðasta sýningardegi

Sunnudaginn 20. nóvember kl. 15-16 verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna Gjöfin til íslenzkrar alþýðu. Þetta er síðasti sýningardagurinn og af því tilefni mun Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, spjalla við gesti um sýninguna ásamt Trausta Jörundarsyni, formanni Sjómannasambands Eyjafjarðar.

Gjöfin til íslenzkrar alþýðu er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ þar sem sjá má margar perlur íslenskrar listasögu. Á sýningunni eru 22 verk af alls 147 úr stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ 1961. Elísabet mun jafnframt segja frá safninu og tilurð þess, listaverkasafnarnum Ragnari Jónssyni í Smára og fjalla stuttlega um einstaka verk á sýningunni. Boðið verður upp á léttar veitingar.