Listasafnið þátttakandi í Northern Lights Fantastic Film Festival

Listasafnið er samstarfsaðili Northern Lights Fantastic Film Festival sem fer fram á Akureyri 26.-29. október. Hátíðin er þematengd kvikmyndahátíð þar sem sjá má 38 alþjóðlegar stuttmyndir í menningarhúsinu Hofi. Dómnefnd velur bestu fantastic myndina sem hlýtur í verðlaun 1.000 evrur og 1 milljón krónur í tækjaúttekt hjá Kukl.

Fantastic er notað yfir ákveðna tegund kvikmynda; til þessa flokks teljast myndir unnar í töfraraunsæi og allt sem er á mörkum þess raunverulega; draugar, huldufólk, þjóðsögur og fantasíur af ýmsu tagi.

Heiðursgestur hátíðarinnar er Christopher Newman sem framleiddi m.a. The Lord of the Rings: The Rings of Power og Game of Thrones. Newman verður fyrsti kvikmyndagerðarmaðurinn sem hlýtur heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir sitt framlag til fantastic kvikmyndaverka. Hann mun einnig taka þátt í pallborði og situr í dómnefnd ásamt leikstjórunum Ingu Lísu Middleton og Erlingi Óttari Thoroddsen.

Fjölmargir viðburðir fara fram á hátíðinni og má sjá dagskrána HÉR.