Þriðjudagsfyrirlestur: Donat Prekorogja

Þriðjudagsfyrirlestur: Donat Prekorogja
Donat Prekorogja.

Þriðjudaginn 19. mars kl. 17-17.40 heldur svissneski myndlistarmaðurinn Donat Prekorogja Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Smiling Pebbles. Aðgangur er ókeypis á fyrirlesturinn, sem fer fram á ensku.

Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um listiðkun sína og persónu út frá listsköpun í fortíð, nútíð og framtíð. „Með því að uppgötva og sjá andlit, dýr, lítil skrímsli og vélmenni í formum risavaxinna bygginga létti, fyrir mér, yfir  steinsteypuveggjunum og ferningunum,“ segir Prekorogja. „Steinninn lifnaði allt í einu við og harkan minnkaði. Þannig hóf ég að vinna með einföld form – ferninga, ferhyrninga, hringi og hálfhringi. Hugmyndin um að blása lífi og takti í þessi stífu og ströngu form heillaði mig.“

Donat Prekorogja fæddist í Sviss, en er af albönskum uppruna. Hann lauk BA námi í myndlist við HEAD Genève 2023, þar sem hann vann með innsetningar og skúlptúr. Eftir útskrift hefur hann verið virkur í sýningarhaldi í Sviss og dvelur um þessar mundir í gestavinnustofu Gilfélagsins.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Egill Logi Jónasson, myndlistarmaður, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, safnfræðslufulltrúi, og Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona.