Þriðjudagsfyrirlestur: Kristinn G. Jóhannsson

Þriðjudagsfyrirlestur: Kristinn G. Jóhannsson
Kristinn G. Jóhannsson.

Þriðjudaginn 8. nóvember kl. 17-17.40 heldur Kristinn G. Jóhannsson, myndlistarmaður, Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Önnur ævi af tveimur. Þar mun hann fjalla um sviptingarnar í málverkinu og rekja langan feril sinn í myndlistinni. Sýning Kristins, Málverk, stendur nú yfir í sölum 02-05 í Listasafninu.

Kristinn G. Jóhannsson er stúdent frá MA 1956 og nam myndlist á Akureyri, Reykjavík og í Edinburgh College of Art. Hann lauk kennaraprófi 1962 og starfaði við kennslu og skólastjórn í tæpa fjóra áratugi. Kristinn efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954, en sýndi fyrst í Reykjavík 1962 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sama ár tók hann í fyrsta sinn þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum. Hann hefur síðan verið virkur á sýningavettvangi. Auk málverka liggja eftir Kristin grafíkverk þar sem hann sækir efni í gamlan íslenskan útskurð og vefnað. Hann hefur myndskreytt fjölda bóka m.a. Nonnabækur og þjóðsögur.

Þetta er síðasti Þriðjudagsfyrirlestur ársins, en þeir munu hefja göngu sína á nýjan leik í lok janúar á næsta ári. Aðrir fyrirlesarar ársins voru Jónína Björg Helgadóttir, myndlistarkona, Melanie Clemmons, myndlistarkona, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir, dansari og danskennari, Rósa Kristín Júlíusdóttir, myndlistarkona, Margrét Katrín Guttormsdóttir, vöruhönnuður, Jasmin Dasović og Ivana Pedljo, gjörningalistafólk, Vala Fannell, leikstjóri, Aaron Mitchell, myndlistarmaður, Margrét Katrín Guttormsdóttir, vöruhönnuður, Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir, grafískur hönnuður, Jenný Lára Arnórsdóttir, leikstjóri, Kenny Nguyen, myndlistarmaður, Eyþór Ingi Jónsson, organisti, Tetsuya Hori, tónskáld, og Rebekka Kühnis, myndlistarkona.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Menntaskólans á Akureyri.