Þriðjudagsfyrirlestur: Margrét Katrín Guttormsdóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Margrét Katrín Guttormsdóttir
Margrét Katrín Guttormsdóttir.

Þriðjudaginn 29. mars kl. 17-17.40 heldur Margrét Katrín Guttormsdóttir, vöruhönnuður, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Tækni í nýsköpun textíls. Í fyrirlestrinum mun hún stikla á stóru um textílnám sitt við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist úr vöruhönnun 2021. Einnig mun Margrét Kristín fjalla um hvað leiddi hana til Blönduósar þar sem hún starfa sem verkefnastjóri TextíLabsins hjá Textílmiðstöð Íslands. TextílLabið er fyrst sinnar tegundar á Íslandi þar sem tækni og menningararfur koma saman. Þar eru ótal möguleikar til textílþróunar og nýsköpunar til staðar með stafrænni tækni.

Margrét Katrín Guttormsdóttir lauk BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands 2021 sem og diplóma í Textílhönnun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík 2018. Hún er með bakgrunn í dansi og útskrifaðist af dansbraut Menntaskólans við Hamrahlíð, sem hefur enn áhrif á þróun hennar og verkefni. Margrét Katrín myndaði ásamt Ragnheiði Stefánsdóttur teymið Þráðlausar sem má rekja til 2018 þegar þær endurunnu textíl í húsgögnum með vefnaði. Hún vinnur í textíltilraunum í tengslum við tækni og efnishönnun og hefur komið fram í Talking Textiles, tímariti sem gefið er út í tengslum við New York Textile Month.

Þetta er síðasti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins, en fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar voru Jónína Björg Helgadóttir, myndlistarkona, Melanie Clemmons myndlistarkona, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir danskennari, Rósa Kristín Júlíusdóttir myndlistarkona, Margrét Katrín Guttormsdóttir vöruhönnuður, Tricycle Trauma – Jasmin Dasović og Ivana Pedljo gjörningalistamenn, Vala Fannell leikstjóri, og Aaron Michell myndlistarmaður.