Þriðjudagsfyrirlestur: Rán Flygenring

Þriðjudagsfyrirlestur: Rán Flygenring
Rán Flygenring, ljósmynd Saga Sig.

Þriðjudaginn 26. október kl. 17-17.40 heldur Rán Flygenring, teiknari, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Listin að móðga, gleðja og greina með teikningum. Þar segir hún frá ferli sínum í námi og starfi allt frá því að hún hélt fyrst á blýanti og til dagsins í dag. Við sögu kemur hirðteiknari Reykjavíkurborgar, myndlýsingar bóka, lundahótel- og búðarekstur, málun gangna, hraðráðstefnuteikning og nokkur ráð um hvernig megi ferðast endalaust og ekki eignast klósettbursta. Í lok fyrirlesturs svarar Rán spurningum sem kunna að brenna á áhorfendum. 

Rán Flygenring er fædd 1987 í Osló en uppalin í Reykjavík. Eftir útskrift af hönnunarbraut Listaháskóla Íslands 2009 hóf hún feril sinn sem grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi á vinnustofu Atla Hilmarssonar. Stuttu síðar gerðist hún hirðteiknari Reykjavíkurborgar undir hatti sumarstarfa Hins hússins. Frá 2012 til 2019 flakkaði Rán um heiminn og sinnti fjölbreyttum teikniverkefnum m.a. í Þýskalandi, Japan, á Ítalíu og Nýja-Sjálandi. Hún sneri aftur til Íslands 2018 þar sem hún býr nú og starfar sjálfstætt við ýmis konar verkefni á sviði myndlýsinga, hönnunar, bókaskrifa og myndrænnar greiningar. 

Rán hefur gefið út á annan tug bóka á Íslandi og í Þýskalandi, bæði ein og í samstarfi við aðra höfunda, og hafa bækurnar verið verið þýddar á fjölda tungumála. Hún hefur látið til sín taka á sviði snarteikninga á ráðstefnum og fundarhöldum sem og notkun myndrænnar greiningar í stefnumótun og jafnréttismálum. Þá hefur hún málað bæði fjallgöng og veggmyndir, teiknað frímerki og bjórdósir, stofnað lundahótel, teiknað borgarlausnir og leikstýrt myndböndum. 

Rán hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín og ber þar helst að nefna Barnabókaverðlaun Þýskalands í tvígang, Barnabókaverðlaunaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga í þrígang og tvær tilnefningar til ALMA-verðlaunanna. 

Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar eru: Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar, Kristinn Schram, þjóðfræðingur, Sigbjørn Bratlie, myndlistarmaður.